Ballettskóli Eddu Scheving var stofnaður árið 1961 og er því elsti einkarekni listdansskóli landsins og fagnaði 60 ára afmæli 2021.
Edda Scheving sá sýningu Konunglega danska ballettsins í Vestmannaeyjum sem ung stúlka og þá voru örlögin ráðin. Edda hóf sitt dansnám hjá Sif Þórz 1946, hún fór í Listdansskóla Þjóðleikhússins við stofnun hans árið 1952. Edda dansaði víða og m.a. í fyrstu uppfærlsu Þjóðleikhússins, Nýársnóttin árið 1950.
Edda fór síðar í frekara nám til Danmerkur og tók þar bæði dans- og ballettkennarapróf á vegum Institut Carslen 1959 og Therpsichore 1960.
Skólinn hefur haft aðsetur á mörgum mismunandi stöðum frá stofnun en þó lengst af á Skúlagötu, í Skúlatúni og síðar í safnaðarheimili Háteigskirkju en þar var skólinn síðast í ein 18 ár.
Árið 2016 flutti skólinn í afar hentugt húsnæði sem er sérhannað fyrir starfsemi skólans. Salurinn er 167 fm en honum er hægt að skipta niður í 2 minni sali. Einnig er góð búningsaðstaða, setustofa og sturtuaðstaða.
Skólinn sérhæfir sig í kennslu í klassískum ballett en einnig er boðið upp á kennslu í öðrum dansstílum og formum.
Eftir margra ára reynslu hefur skólinn viðað að sér og stuðst við efni úr mörgum kerfum, þar á meðal frá Royal Academy of Dancing, the Vaganova method o.fl. Skólinn hefur einnig sett saman sína eigin námskrá sem sniðin er fyrir hvern aldurshóp fyrir sig.
Markmið skólans er að veita nemendum markvissa þjálfun sem sett er fram á skemmtilegan og jákvæðan hátt. Áhersla er lögð á fjölbreyttar æfingar, góða tæknivinnu, jafnvægisæfingar, liðleika og styrktaræfingar sem og uppbyggilegar og jákvæðar leiðbeiningar. Nemendur kynnast mörgum mismunandi dansformum og stílum.
Dansinn er listform þar sem listamaðurinn er efniviðurinn og krefst klassískur listdans margra ára þjálfunar.
Kennarar skólans hafa allir farið í gegnum langt og strangt nám í listdansi og hafa margra ára reynslu úr dansi og kennslu. Við leggjum mikla áherslu á að nemendur njóti dansins og dansgleðinnar auk þess sem við myndum ætíð góð og persónuleg tengsl við alla nemendur okkar.
Skólastjóri og eigandi skólans er Brynja Scheving og hefur skólinn verið rekinn af henni síðan árið 2002 en þá tók hún við rekstrinum af móður sinni Eddu Scheving.